“Stofnanir ólu barnið mitt upp”

Þetta er setning sem ég vonast til að muni ekki eiga við mig og barnið mitt í framtíðinni. Nú er Styrmir Örn sonur minn kominn á leikskóla aldur og höfum við foreldrar hans þurft að velta ýmsu fyrir okkur. Meðal annars hverjir það eru sem eiga að sjá um að ala hann upp.

Það að fá barn í hendurnar getur breytt hugsunarhætti manns verulega. Það fylgir þessu hlutverki svo gríðarlega mikil ábyrgð. Spurningin er svo, hver á að taka þessa ábyrgð á sig?

Við lifum í samfélagi þar sem telst eðlilegt að senda börnin okkar inn á einhverskonar stofnun svo við getum „haldið lífi okkar áfram“. Við erum því miður ekki svo heppin að fá greitt fyrir það að eignast og ala upp börnin okkar sjálf svo einhvers staðar þurfum við að sækja pening.

Eftir að hafa verið Au Pair fékk maður að kynnast og heyra af fjölskyldum sem voru í burtu stóran part dags og sáu stofnanir á borð við leik- og grunnskóla mestmegnis um að ala börn þeirra upp. Ásamt auðvitað barnahjálpinni.

Mig þykir það samt vera á minni ábyrgð að sjá til þess að sonur minn verði rétt upp alinn og fái sem besta leiðsögn í lífinu. Hvað þá fyrstu árin hans. Hann var að byrja hjá dagmömmu, á 14. mánaða afmælisdegi hans. Mig þykir það vera ágætt fyrsta stökk inn í þetta „skóla“kerfi okkar. Ég ætla að reyna mitt besta að eyða sem mestum tíma með honum sjálf, þegar ég þarf ekki að læra eða vinna og vona að í framtíðinni verði gert meira fyrir námsmenn sem eru í barneignum. Eða jafnvel að þetta kerfi okkar verði endurhugsað og að foreldrar fái betri tækifæri til þess að verja fleiri stundum með börnum sínum.

STOFNANIR ÓLU UPP BARNIÐ MITTÁ leiðinni til dagmömmu í fyrsta skipti. 

(Ég geri mér grein fyrir því að margir foreldrar hafi ekki annað val en að hafa börnin sín í daggæslu allan daginn. Ég vona þá allavega, að næstu kynslóð gefist valkostur þegar þau fara að ala upp börnin sín. Að þeim foreldrum sem kjósa að eyða meiri tíma með börnunum heima, hafi möguleika til þess. Án þess að verða fyrir tekjutapi.)

Ég er 26 ára Mosfellingur, búsett í Hafnarfirði ásamt syni mínum og kærasta. Ég stunda nám við Háskólann á Akureyri og hef gaman af ferðalögum, halda fallegu heimili og fegurð/heilsu.