Þegar við Palli fluttum fyrst inn saman þá fluttum við alla leiðina á Akureyri. Eins og gengur og gerist áttum við ekki allt í búið og sönkuðum við því að okkur hægt og rólega. Sumt keyptum við nýtt, annað fengum við notað eða gefins.

Eitt af því sem að við fengum gefins var gamalt skrifborð (MICKE) úr IKEA. Það sá aðeins á því svo ég keypti filmu í BAUHAUS og filmaði borðið eftir að við fluttum inn. Ég hafði einu sinni áður filmað með vinkonu minni og hélt ég að það yrði ómögulegt að gera þetta ein en svo var ekki.

Ég byrjaði á því að strjúka af öllu borðinu og hófst svo handa við að filma eftir að borðið var orðið þurrt. Það kom mér í raun á óvart hversu vel þetta gekk og hversu vel þetta heppnaðist. Mér þótti mjög vænt um þetta borð því þetta var eitthvað sem að ég sjálf hafði lagt vinnu í að gera. Borðið fylgdi okkur því miður ekki suður. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess verulega að eiga snyrtiborð.

DIY SNYRTI & SKIPTIBORÐ 5

Það var ekki að sjá á borðinu hversu sjúskað það var áður

Á meðan á meðgöngunni stóð var svo hafist handa við að leita að hinu og þessu sem fylgir því að eiga barn. Það er sko ekki lítið dót sem fylgir þessum litlu manneskjum og tókum við þá ákvörðun um að kaupa ekki allt nýtt, sérstaklega þar sem að margt er einungis notað í örstuttan tíma. Við vorum svo heppin að fá gefins gamla kommóðu frá frænda mínum sem var líka skiptiborð. Við pússuðum og máluðum borðið og gerði ég dauðaleit að fallegum höldum á borðið en fundum við engar sem okkur líkaði báðum. Við enduðum á því að spreyja gömlu höldurnar matt svartar og það var HÁ rétt ákvörðun. Það fóru nokkrar kvöldstundir í að gera kommóðuna upp og þótti okkur það mjög gaman (Palli gerði þó mest alla vinnuna þar sem ég var langt gengin með Styrmi).

DIY SNYRTI & SKIPTIBORÐ 6

Ég mæli svo með því að gera upp gömul húsgögn. Manni þykir mun vænna um heimili sitt ef það fylgir því einhver saga og sérstaklega þegar að maður lagði sjálfur vinnu í að gera hlutinn. Útkoman verður eflaust ekki fullkomin en það er það sem gerir mubluna svo einstaka.

DIY SNYRTI & SKIPTIBORÐ 7
Erum svo glöð með skiptiaðstöðuna okkar

 

Ég er 26 ára Mosfellingur, búsett í Hafnarfirði ásamt syni mínum og kærasta. Ég stunda nám við Háskólann á Akureyri og hef gaman af ferðalögum, halda fallegu heimili og fegurð/heilsu.